Einn mikilvægasti þáttur útivistarsiðfræði er tillitssemi og kurteisi við aðra ferðalanga. Það hjálpar við að gera upplifun og reynslu allra sem besta.
Margir fara út í náttúruna til að hlusta eftir hljóðum hennar eða jafnvel til að njóta öræfakyrrðarinnar. Ekkert er eins hvimleitt eins og aðrir ferðalngar sem ekki taka tillit til þess. Eru jafnvel með glymskratta í eyrum sem er svo hátt stilltur að það glymur í kringum þá. Eða að einhver ferðalangur sem telur sig svo ómissandi að hann þarf að taka með sér síma til fjalla eða út í náttúruna sem hann talar svo hátt og snjallt í. Eins þarf að taka tillit til annarra ef þú ferðast með gæludýrið þitt sem ætíð ætti að vera í bandi innan um aðra ferðalanga (og ekki gleyma að taka með poka undir úrgang frá dýrinu).
Hafðu líka í huga að tilfinningin fyrir einveru er meiri ef hópar eru litlir, sérstaklega á opnum svæðum.
Þegar gengið er á stíg og þú mætir hóp skal víkja af stígnum á góðum stað þar sem gróður og jarðvegur þolir ef því verður við komið.
Þeir sem eru á leið niður fjallshlíð eftir stíg víkja ætíð fyrir þeim sem eru að klífa brattann og skal gefa þeim gott svigrúm. Stórir hópar víkja ætíð fyrir minni hópum.
Viljir þú hvíla þig á göngu á þröngum þá skaltu láta næsta mann vita og stíga út af stígnum svo næsti maður á eftir komist auðveldlega fram úr þér.
Þá er ágætis regla að áður en haldið er í ferð að skilja eftir öll ilmefni. Fátt er hvimleiðara en að ganga í hóp í kjölfar einhvers sem lyktar eins og snyrtibás í Hagkaup! Ef einhver hefur áhyggjur af vondri líkamslykt ætti hinn sami að hafa í huga að fljótlega ilma allir „jafnvel” á fjöllum eða í óbyggðum.
Ef þú ert á hjóli skaltu ætíð hafa stjórn. Áður en farið er framhjá öðrum skal á kurteisislegan hátt láta vita af nærveru sinni. Aldrei skildi öskra áaðra vegfarendur. Þar sem göngumenn og hjólamenn nota sama stíginn er mjög mikilvægt að hvor taki tillit til hins og víki í tíma til að gera ferðalagið að ánægjulegu ferli. Því miður fara þessir ferðamátar ekki alltaf vel saman á þröngum stígum og best væri að þeir væru aðskildir. Sums staðar er hjólaumferð bönnuð á göngustígum og ber að virða það. Eins ættu göngumenn að virða hjólastíga.Þegar þú kemur að hliði skaltu skilja við það eins og að var komið. Þó skal loka opnu hliði ef þú veist að það á að vera lokað.