Samkvæmt íslenskum lögum er „ óheimilt er að kveikja eld á víðavangi þar sem almannahætta getur stafað af eða hætt er gróðri, dýralífi eða mannvirkjum”. Jafnframt er hverjum þeim sem ferðast um að gæta ítrustu varfærni í meðferð elds. (Lög nr. 60/2013).

Á Íslandi er lítil hefð fyrir því að matreiða yfir opnum eldi, enda er brenni víðast hvar af skornum skammti í íslenskri náttúru. Í óbyggða ferðalögum er algengast að ferðalangar notist við ferðaprímusa sem ganga annað hvort fyrir gasi eða olíu. Spritprímusar eru óalgengari.

Við eldamennsku þarf að gæta að því að prímusinn sé á stöðugu undirlagi svo ekki sé hætta á að hann falli um koll og valdi skaða eða jafnvel gróðurskemmdum.

Varðeldar

Sé ætlunin að kveikja varðeld þarf fyrst að ganga úr skugga hvort það sé leyfilegt. Víða er búið að koma upp skipulögðu eldstæði á tjaldstæðum landsins. Ef ekki er til staðar tilbúið eldstæði þarf að binda þannig um hnúta að eldurinn geti ekki breiðst út í nálægan gróður. Velja þarf staðinn af kostgæfni þar sem kveikja á varðeld. Aldrei skildi rífa upp gróður eða slíta lifandi greinar af trjám sem brenni. Þá skal huga að því með hvaða hætti verður gengið frá eldstæðinu áður en hafist er handa.

Þegar eldur er kulnaður skal losa sig við ösku með því að dreifa henni og ganga þannig frá varðeldsstæðinu að það verði Án Ummerkja.

Sé þess kostur er snjallt að útbúa og nota eldpönnu eins og sjá má hér að neðan.

Ein nota grill

Einnota grill eru vinsæl á meðal ferðalanga þó ekki séu þeir margir sem dröslast með slíkar græjur í bakpokaferðalögum um óbyggðir. En á fjölsóttum tjaldsvæðum með bílaaðgegni eru þau vinsæl. Því miður er allt of algengt að fyrirhyggjulítil og röng notkun hafi valdið skaða á gróðri og jafnvel gróðureldum. Því er mikilvægt að sýna fyrirhyggju og aðgát. Ávallt ætti að velja stað af kostgæfni helst á sendnu undirlagi eða klöpp. Ef það er ekki til staðar er nauðsynlegt að setja óbrennanlegt undirlag eins og steina undir grilllið. En mun aþarf að ganga frá steinum á sinn stað að lokinni notkun. Þá þarf að gera ráð fyrir að einnota grill eru tölverðan tíma að kulna út.  Alltof algengt að rekast á slík grill á víðavangi þar sem notandinn hefur ekki gefið sér tíma til að bíða eftir  að það kólnaði og því skilið það eftir öðrum til ama. Eins eru svartir brunablettir í grassverði á tjaldstæðum til vitnis um ranga notkun.

Í þessu sambandi er enn og aftur minnt á fyrstu lífsregluna um skipulagningu og undirbúning.