Ferðastu um og tjaldaðu þar sem gróður og jarðvegur þolir

Markmið óbyggðaferða er að ferðast um óbyggðirnar án þess að valda skaða á landinu sem ferðast er um. Skilningur á því hvernig ferðalög um viðkvæm svæði hafa áhrif, er því mikilvægur til að ná þessu markmiði.

Vegna aldurs og legu Íslands er náttúrulegt umhverfi landsins mjög viðkvæmt fyrir álagi. Landmótunarlega séð er íslenskt landslag óstöðugt sem eykur enn á viðkvæmni þess. Sérstaklega á þetta við um land innan gosbeltanna en þar eru jú margir af okkar vinsælustu áfangastöðum ferðamanna. Álag getur raskað ríkjandi jafnvægi og komið af stað alvarlegu rofi gróðurs og jarðvegs. Lítið sár í gróðurþekjuna getur til dæmis orðið upphafið að alvarlegri landhnignun sem erfitt er að snúa við. Því gegnir órofin gróðurþekja lykilhlutverki í að draga úr afli rofferlanna. Um leið og hún rofnar verður jarðvegurinn undir berskjaldaður fyrir vind-og vatnsrofi sem eflast eftir því sem sárin eru stærri. Margt kemur til að íslenskur jarðvegur er sérlega viðkvæmur fyrir álagi. Mikið magn eldfjalalgjósku sem einkennir hann hefur mikil áhrif á viðnámi gangvart rofi. Lág eðlisþyngd jarðvegskorna veldur því að hann er mjög rokgjarn og á vindur því mjög auðvelt með að feykja honum burt. Þá getur íslenskur jarðvegur einnig auðveldlega safna í sig miklu vatni sem leiðir til þess að frostáhrif eru meiri en ella. En slík áhrif auka myndun ísnála, þúfna, jarðsils, aurflóða og aurskriða. Rannsóknir Guðrunar Gísladóttur (2001, 2003, 2006) hafa sýnt að traðk af völdum ferðafólks hefur töluverð áhrif í þessu sambandi. Hafa niðurstöðu rannsókna hennar sýnt fram á að tegund gróðurlendis er sá þáttur sem mest áhrif hefur á vistkerfi göngustíga. Er mosaþemba sem dæmi viðkvæmasta gróðurlendið gagnvart álagi, með mun lægri þolmörk en lyngmói við sama álag. Er þetta mikilvægt að hafa í huga þegar ferðast er um landið okkar þar sem mosaþemba er ríkjandi gróðurlendi á mörgum af okkar vinsælustu ferðamannastöðum (Rannveig Ólafsdóttir, 2007).

Til óbyggðaferða geta talist ferðalög bæði eftir stígum og utan þeirra.

Ferðast á stígum

Þar sem umferð gangandi á náttúrusvæðum er mikil, leitast stjórnendur þeirra svæða við að leggja stíga með auðsýnilegum hætti til að stjórna umferð gangandi og koma í veg fyrir skemmdir á landi. Lagðir stígar eru út af fyrir sig hafa áhrif á land. Samt sem áður eru þeir nausynlegt viðbragð við þeirri staðreynd að fólk ferðast um óbyggðir. Með því að beina gangandi umferð á stíga minnka líkurnar á óæskilegri stígamyndun sem setja ör á landslagið. Það er betra að vera með einn vel lagðan stíg heldur en marga illa grundaða stíga.

Ráðlagt er að notast við stíga hvar sem því verður við komið. Ferðalangar eru hvattir til að ganga eftir stígnum miðjum og ekki stytta sér leið á hlykkjóttum stíg. Ferðalangar sem taka sé hvíld á stíg ættu að víkja fyrir öðrum göngumönnum (Göngufélagar í sama hóp ættu að stoppa reglulega til að hvíla sig og spjalla saman. Forðast ætti hróp og köll á göngu því hávaði er yfirleitt ekki velkominn í óbyggðum).

Ferðast utan stíga

Öll ferðalög sem notast ekki við lagða stíga svo sem ferðalag um ósnortin víðerni, leit af klósettstað og rannsóknaleiðangrar í kringum tjaldstæði er skilgreint sem utanstíga ferðalag. Það eru tveir áhrifaþættir sem skipta hvað mestu máli þegar utanstígaferðalög eru skoðuð. Annars vegar þol jarðvegs og gróðurþekju og hins vegar ferðatíðni og fjöldi ferðalanga.

Með þoli jarðvegs er átt við þá hæfni yfirborðs eða gróðurþekju að  standast álag og vera í stöðugu ástandi, sbr. umfjöllun hér að ofan.

Tíðni notkunar og stórir ferðahópar auka líkurnar á að stór svæði séu troðin niður eða að lítil svæði verði fyrir sífelldum átroðningi.

Að tjalda á vinsælum svæðum.

Val á viðeigandi tjaldstæði er ef til vill mikilvægast þáttur óbyggðaferðalags með lágmarksáhrifum. Það krefst þess að við notum dómgreind okkar og góðar upplýsingar í bland við málamiðlun milli vistfræðilegra og félagslegra áhrifa. Ákvörðun um tjaldstað ætti að byggjast á því hvort staðurinn þoli það að þar sé tjaldað með tilliti til jarðvegs, gróðurs og dýralífs. Ekki endilega hvað hentar okkur best og hver sé fallegast tjaldstaðurinn.

Forðast ætti að tjalda nálægt vatni og gönguleiðum, og velja ætti staði sem er ekki auðsjáanlegur öðrum ferðalöngum. Meira að segja á fjölförnum slóðum er hægt að finna tjaldstað sem eykur á kyrrðar- og út af fyrir sig tilfinningu. Vertu þess fullviss að kynna þér reglur um tjöldun á viðkomandi svæði. Þreyta, slæmt veður og það að hafa lagt seint af stað eru ekki haldbærar afsakanir fyrir því að tjalda á viðkvæmu svæði. Minnumst fyrstu lífsreglunnar um skipulagningu og undirbúning.

Vanalegast er best að tjalda á stað þar sem áður hefur verið tjaldað og viðbótartjöldun mun ekki hafa frekari merkjanleg áhrif.

Að tjalda á fáförnum slóðum

Óspillt svæði eru vanalegast fjarlæg og fáfarin. Þar eru fáir gestir og auðsjáanleg ummerki um ferðmenn lítil. Heimsókn á slíka staði ættu einungis að vera til skoðunar ef þú ert staðráðin í og ert fær um að nota aðferðir Án Ummerkja. Þ.e. að ferðast Án Ummerkja.

Á óspilltum svæðum ætti að dreifa tjöldum yfir stórt svæði, forðast stígamyndun og færa tjöldin á hverju kvöldi sé hugmyndinn að dveljast um lengri tíma á sama stað. Gott er að notast við mjúka skó innan tjaldbúðar til að minnka áhrif. Höfum ferðir að vatnsbóli sem fæstar með því að hafa meðferðis stór vatnsílát. Einnig ætti að gæta hvar maður stígur niður og forðast að stíga á viðkvæman gróður, sé hjá því komist. Athuga skal vel hvaða reglur gilda um tjöldun en góð þumalputtaregla er að tjalda ekki nær vatni en 70 metra.

Þegar tjaldbúðir eru teknar niður ætti að gefa sér tíma til að gera svæðið náttúrulegt á ný. Strjúka yfir og rétta úr gróðri og að sjálfsögðu taka allt rusl með sér. Helst ætti að ganga þannig frá að næsti ferðalangur geri sér vart grein fyrir að þarna hafi einhver tjaldað áður. Ef þú hefur þurft að nota steina til að staga tjaldið þitt niður þá skaltu leggja á minnið hvaðan þú tókst þá og ganga frá þeim á sinn stað. Alltof víða eru farnar að myndast steinhrúgur við vinsæl tjaldsvæði sem eru til lýta. Einnig gefur rofin jarðvegsþekjan, þaðan sem þú tókst steininn, roföflum lausan tauminn.



Heimildir :

Anna Dóra Sæþórsdóttir, Rannveig Ólafsdóttir & Rögnvaldur Ólafsson (2007). Ferðamennska við Laka. Höfn í Hornafirði: Háskólasetrið á Hornafirði.

Guðrún Gísladóttir (2006). The impact of tourist trampling on Icelandic Andosols. Zeitschrift für geomorphologie. Supplement volume 143, bls. 53‐70.

Guðrún Gísladóttir (2003). Áhrif ferðamanna á umhverfi Lónsöræfa. Í: Anna Dóra Sæþórsdóttir (ritstjóri) Þolmörk ferðamennsku í friðlandi á Lónsöræfum (bls. 41‐90), Reykjavík: Ferðamálaráð Íslands, Háskóli Íslands og Háskólinn á Akureyri.

Guðrún Gísladóttir (2001). Þolmörk vistkerfisins í þjóðgarðinum í Skaftafelli. Áhrif gönguferðamanna á gróður og jarðveg. Í: Anna Dóra Sæþórsdóttir, Guðrún Gísladóttir, Arnar Már Ólafsson, Bergþóra Aradóttir og Björn Sigurjónsson (ritstjórar). Þolmörk ferðamennsku í þjóðgarðinum í Skaftafelli (bls. 71‐106), Reykjavík: Ferðamálaráð Íslands, Háskóli Íslands og Háskólinn á Akureyri.