Má tjalda hvar sem er?

Það eru ýmis atriði sem hafa ber í huga ef stefnt er að því að tjalda eða hafa næturgistingu utan skipulagðra tjaldsvæða. Í nóvember 2015 tóku í gildi ný náttúruverndarlög þar sem nokkrar breytingar urðu á því hvar sé heimilt að tjalda. Til að mynda var lögunum breytt í þá vegu að nú er óheimilt að hafa næturgistingu í tjaldvögnum, fellihýsum, hjólhýsum, húsbílum og öðrum sambærilegum búnaði utan skipulagðra tjaldstæða og þéttbýlis nema leyfi landeiganda eða rétthafa lands komi þar til. Annars gilda eftirfarandi reglur um hvar má tjalda samkvæmt lögunum: 

Það má tjalda:

  • við alfaraleið í byggð er heimilt að tjalda hefðbundnum viðlegutjöldum til einnar nætur á óræktuðu landi sé tjaldsvæði ekki í næsta nágrenni og landeigandi hefur ekki takmarkað eða bannað aðgang að svæðinu með merkingum við hlið og göngustíga umferð manna og dvöl þeirra innan svæðisins.
  • við alfaraleið í óbyggðum, hvort heldur er á eignarlandi eða þjóðlendu, er heimilt að setja niður hefðbundin viðlegutjöld.
  • utan alfaraleiðar hvort heldur sem á eignarlandi eða þjóðlendu, er heimilt að tjalda hefðbundnum viðlegutjöldum nema annað sé tekið fram í sérreglum sem kunna að gilda um svæðið.  

Það þarf að afla leyfis landeiganda eða rétthafa lands:

  • ef til stendur að tjalda nærri mannabústöðum eða bæ.
  • ef til stendur að tjalda til fleiri en einnar nætur.
  • ef um er að ræða fleiri en þrjú tjöld.
  • ef um er að ræða ræktað land.
  • ef um er að ræða tjaldvagna, fellihýsi, hjólhýsi, húsbíla og annan sambærilegan búnað utan skipulagðra tjaldsvæða og þéttbýlis.                

Eru einhver svæði þar sem má ekki tjalda/hafa næturgistingu ?

  • Eiganda lands eða rétthafi getur takmarkað eða bannað að tjöld séu reist þar sem veruleg hætta er á að náttúra landsins geti beðið tjón af.
  • Ef landeigandi eða rétthafi lands hefur útbúið sérstakt tjaldsvæði á sínu landi er honum heimilt að beina fólki þangað og taka gjald fyrir þjónustuna. Eins ef tjaldsvæði er í nágrenni eignarlandsins getur eigandinn beint fólki þangað.
  • Á friðlýstum svæðum geta verið takmarkanir á því hvort heimilt sé að tjalda eður ei. Sjá nánar hér.

Ofangreindar upplýsingar eru af heimasíðu Umhverfisstofnunar.