Einkenni
Gróður á Íslandi má gróflega greina í nokkra meginflokka; votlendi, skóg og kjarr, mólendi, graslendi (þ.m.t. ræktað land), mosagróður og loks bersvæðagróður (m.a. á melum og söndum). Steindór Steindórsson taldi auk þess strandgróður sem sérstakan flokk. Á gróðurkorti Náttúrufræðistofnunar í mælikvarðanum 1:500.000 eru greindir fimm meginflokkar. Þar er sæmilega og algróið land með ríkjandi blómplöntum aðeins talið á ríflega þriðjungi landsins (35%). Í þeim flokki fellur stærsti hlutinn í mólendi, graslendi og ræktað land. Um 8% landsins teljast votlendi en birkiskógar og kjarr samanlagt aðeins um 1%. Loks flokkast um 10% sem mosaland með strjálli háplöntuþekju.
Nýlega var á vegum Landmælinga Íslands lokið við flokkun landgerða á Íslandi eftir samevrópsku landflokkunarkerfi, CORINE. Í því er byggt á staðlaðri aðferðafræði sem hentar ekki að öllu leyti vel fyrir íslenskar aðstæður. Samkvæmt Corine kerfinu falla um 88% landsins í grunnflokkinn skógar og önnur náttúruleg svæði. Innan þessa flokks eru víðáttumestu landgerðirnar mólendi, mosi og kjarr (u.þ.b. 35% landsins), ógróin hraun og urðir (23%), hálfgróið land (13%), jöklar og fannir (10%) og mýrar (6%). Flatarmál birkiskóga og kjarrlendis var áætlað ríflega 8.000 ha árið 2010, samsvarandi 0,8% landsins. Þar af voru ríflega 5.000 ha með nægilega hávöxnum trjám til að flokkast sem skógur.
Nokkuð ber á milli útreikninga á hlutfalli auðna og lítt gróins lands á Íslandi á móti grónu landi. Samkvæmt gróðurkorti Náttúrufræðistofnunar bera rétt rúmlega 40% landsins bersvæðagróður, þ.e. eru lítt gróið land eða auðnir. Á vef Landmælinga Íslands er gróið land talið þekja um 23% landsins en auðnir 63% (jöklar og vötn fylla það sem eftir stendur). Í tengslum við Nytjalandsverkefni Rala/ Landbúnaðarháskóla Íslands voru um 44% landsins talin gróin en tæplega 43% ógróin. Samkvæmt nýrri útreikningum Landbúnaðarháskólans teljast 29% landsins lítt gróin en 13% hálfgróin.
Gróðurfarslega má aðgreina láglendis- og hálendisgróður við 300–400 m h.y.s. Rétt tæplega tveir þriðju hlutar lands (64%) neðan 400 m hæðar eru gróið land með ríkjandi háplöntum en aðeins 15% landsins ofan 400 m. Minni munur er á hlutfalli mosagróins lands neðan (13%) og ofan (8%) 400 m hæðar . Utan gosbeltisins teygir gróður sig víða samfellt frá láglendi inn á víðlendar heiðar á miðhálendinu, t.d. Holtavörðuheiði, Arnarvatnsheiði, Vopnafjarðarheiði og Fljótsdalsheiði. Á eldvirka beltinu sleppir samfelldum gróðri oft við hálendisbrúnina en ofar taka við lítt gróin öræfi þar sem samfelldur gróður myndar einangraðar eyjar sem oftast liggja lágt í landinu þar sem vatnsstaða er há. Telja má Þjórsárver stærstu einangruðu gróðurvinina í þessum flokki en aðrir þekktir staðir eru t.d. Herðubreiðarlindir og Hvannalindir. Gróðurvinjarnar hafa margháttað gildi; fyrir líffræðilega fjölbreytni, vegna vistkerfisþjónustu, í jarðvegi þeirra er skráð saga umhverfisbreytinga, þær hafa mikið aðdráttarafl fyrir ferðamenn vegna sérstæðs landslags og náttúrufegurðar og loks hafa þær margháttað menningarsögulegt gildi. Um þær lágu fornar og stundum varðaðar leiðir, þar voru áningarstaðir og stundum sæluhús og þeim tengjast sögur og atburðir.
Fjölmargar rannsóknir benda til þess að hér hafi orðið gríðarlegar breytingar á gróðri frá því land var numið á 9. öld. Skógur og kjarr hafa eyðst og í kjölfarið fylgdi gróður- og jarðvegseyðing sem helst á sér hliðstæðu í löndum með heitt og þurrt loftslag, s.s. við Miðjarðarhaf og í Norður-Afríku. Gróður ber víða merki langvarandi og þungrar búfjárbeitar.
Heimild: Aagot V. Óskarsdóttir (ritstj.) (2011). Náttúruvernd. Hvítbók um löggjöf til verndar náttúru Íslands. Reykjavík: Umhverfisráðuneytið.