Einkenni

Lífríki Íslands mótast að miklu leyti af landfræðilegri einangrun, norðlægri hnattstöðu og þeim skamma jarðsögulega tíma, 14.000–10.000 árum, sem liðinn er síðan landið var hulið jökli. Flóra og fána eru fremur tegundafátæk. Heimskautarefurinn (Alopex lagopus) er eina innlenda spendýrið og hér eru hvorki skriðdýr né froskdýr. Fram að landnámi voru engir grasbítar í landinu nema gæsir og aðrir fuglar. Þótt flóra og fána landsins séu að miklu leyti einangruð eru hér fáeinar einlendar tegundir sem hvergi finnast annars staðar. Þar á meðal eru tvær tegundir grunnvatnsmarflóa. Þessar tvær tegundir eru líklega elstu íbúar Íslands, en allt bendir til þess að aðrar tegundir lífvera sem nú byggja landið hafi langflestar borist hingað eftir að síðasta jökulskeiði lauk. Birki (Betula pubescens) er eina trjátegundin sem myndað hefur skóga á nútíma, þ.e. síðastliðin 10.000 ár. Fuglar eru áberandi í fánu landsins og þótt tegundir séu ekki ýkja margar eru hér mjög stórir stofnar ákveðinna hópa, einkum bjargfugla og mófugla. Í hnattrænu samhengi skipta búsvæði hér á landi miklu máli fyrir verndun allmargra fuglategunda.

Flóra. Innlendar háplöntutegundir eru taldar vera um 490, þar af eru um 450 tegundir blómplantna, tæplega 40 tegundir byrkninga (jafna, elftinga og burkna) og einn berfrævingur, einir. Stærstu ættir blómplantna eru grös og starir eins og jafnan einkennir lágarktískar eða súbarktískar flórur. Tegundir af víðisætt eru fjórar og hafa líklega áður fyrr verið mun útbreiddari og eru afar mikilvægar vistfræðilega. Alls hafa verið greindar 600 mosategundir. Mosaflóran er því tegundaauðugri en háplöntuflóran. Um 700 tegundir fléttna hafa verið skráðar hér á landi og um 2100 sveppategundir (fléttu-sveppir undanskildir). Mosar og fléttur eru mun meira áberandi á Íslandi en víða annars staðar sem endurspeglar líklega ýmsa þætti, m.a. loftslag, síendurtekna myndun á nýju undirlagi, einkum hraunum, en einnig langa og þunga búfjárbeit sem hefur haldið niðri lostætum tegundum sem annars hefðu vaxið yfir lággróður mosa og fléttna.

Tegundaauðgi háplöntuflórunnar er misdreifð um landið. Í elstu landshlutum á Miðnorðurlandi, Austfjörðum og sums staðar á Vestfjörðum eru margir tegunda- auðugir reitir enda mikill hæðarmunur í mörgum þeirra. Yfirbragð flórunnar er sérstakt á þessum útskögum, stórir burknar og sígrænir smárunnar eru áberandi og þar sem búfé gengur ekki er sums staðar litríkt blómskrúð. Á þessum svæðum eru margar sjaldgæfar plöntutegundir og hafa verið gerðar tillögur um friðlýsingu stórra svæða á Vestfjörðum, Miðnorðurlandi og Austfjörðum af þessum sökum. Reitir á hálendi, sérstaklega á eldvirka beltinu, eru mun tegundafátækari.

Fána. Smádýrafánan er tegundasnauð miðað við fánu nágrannalanda og er að meginþorra af evrópskum uppruna. Heildarfjöldi smádýra á Íslandi, þ.e. skordýra, áttfætlna, krabbadýra, þyrildýra, liðorma, flatorma, þráðorma o.fl. hópa, er óþekkt- ur en um 1400 tegundum alls hefur verið lýst af landi og úr ferskvatni. Af þessum 1400 tegundum eru um þrír fjórðu hlutar skordýr en fjölbreyttustu hóparnir þar á meðal eru tvívængjur (um 380 tegundir), æðvængjur (um 260 tegundir) og bjöllur (um 250 tegundir). Enn er langt í land með að fullnægjandi sýn hafi fengist á smádýrafánu þurrlendis og ferskvatns þannig að unnt sé að meta verndarþörf einstakra tegunda og sérkenni hennar miðað við önnur lönd.

Þó ekki sé vitað um tegundir landhryggleysingja sem eru einskorðaðar við Ísland, ólíkt því sem þekkist meðal tegunda í ferskvatni, finnast hér séríslensk afbrigði tegunda. Má þar nefna laugafluguna (Scatella tenuicosta) en hún hefur þróað með sér ýmis afbrigði og mikinn breytileika í útliti sem tengist uppeldis- stöðvum á einangruðum jarðhitasvæðum, þ.e. afbrigðið S. t. forma thermarum. Tröllasmiður (Carabus problematicus) í Hornafirði er talinn til séríslenskrar undirtegundar (C. p. islandicus).

Fuglar eru mjög áberandi þáttur í lífríki Íslands. Á landinu verpa að jafnaði um 75 tegundir fugla en rúmlega 100 tegundir hafa orpið hér einu sinni eða oftar. Yfir 20 tegundir fargesta fara um Ísland vor og haust á leið sinni milli hánorrænna varpstöðva og suðlægari vetrarstöðva. Margar þeirra eru jafnframt íslenskir varpfuglar, en tegundir eins og rauðbrystingur (Calidris canutus), tildra (Arenaria inter- pres), sanderla (Calidris alba), margæs (Branta bernicla), blesgæs (Anser albifrons) og ískjói (Stercorarius pomarinus) eru algerir fargestir. Hér við land eru nokkrar tegundir árlegir vetrargestir og má þar nefna bjartmáf (Larus glaucoides), haftyrðil (Alle alle) og æðarkóng (Somateria spectabilis). Nokkrar fuglategundir eru útdauðar úr íslenskri náttúru, þ.m.t. geirfugl (Pinguinus impennis) sem útrýmt var árið 1844 við Eldey, þegar síðasta geirfuglinum á jörðinni var komið fyrir kattarnef. Keldusvín (Rallus aquaticus) og haftyrðill (Alle alle) verpa ekki lengur á Íslandi en eru algengir annars staðar.

Þótt tiltölulega fáar fuglategundir verpi hér á landi er fjöldi einstaklinga oft mikill og af þeim sökum geta íslenskir fuglastofnar eða stofnar fargesta, sem byggja afkomu sína á viðdvöl hér á landi á fartíma, verið hátt hlutfall af Evrópu- eða heimsstofni viðkomandi tegundar. Í alþjóðasamstarfi eru slíkar tegundir nefndar ábyrgðartegundir. Ef miðað er við 30% mörk af Evrópustofni eru hér að minnsta kosti 20 fuglategundir eða deilitegundir sem Ísland ber mikla ábyrgð á. Þær tegundir eru fýll (Fulmarus glacialis), sjósvala (Oceanodroma leucorhoa), heiðagæs (Anser brachyrhynchus), blesgæs, margæs, æðarfugl (Somateria mollissima), straumönd (Histrionicus histrionicus), húsönd (Bucephala islandica), sandlóa (Charadrius hiati- cula), heiðlóa (Pluvialis apricaria), rauðbrystingur, sendlingur (Calidris maritima), lóuþræll (Calidris alpina), spói (Numenius phaeopus), stelkur (Tringa totanus), óðinshani (Phalaropus lobatus), skúmur (Stercorarius skua), kría (Sterna paradisaea), langvía (Uria aalge), álka (Alca torda) og lundi (Fratercula arctica).

Aðeins eitt villt þurrlendisspendýr, refurinn, er upprunalegt á Íslandi, en hagamús (Apodemus sylvaticus), húsamús (Mus musculus), brúnrotta (Rattus norvegicus), svartrotta (Rattus rattus), minkur (Mustela vison), hreindýr (Rangifer tarandus) og kanína (Oryctolagus cuniculus) hafa verið flutt til landsins af mönnum, viljandi eða óviljandi og lifa nú villt í landinu. Refurinn hefur sennilega lifað á Íslandi óslitið frá lokum síðasta jökulskeiðs og hugsanlega mun lengur. Stærð refastofnsins hefur sveiflast töluvert undanfarin 150 ár. Stofninn var í lágmarki um 1970 en síðastliðin 30 ár hefur hann tífaldast og nú er áætlað að hann telji um 12.000 dýr. Allt frá landnámi og lengst af síðan hefur refurinn ekki notið neinnar verndar, en á því varð breyting árið 1994 með lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum. Samkvæmt þeim skal refurinn nú njóta verndar en í því felst að honum skuli ekki stefnt í hættu með veiðum eða öðrum aðgerðum. Veiðar á ref eru því heimilar með tilgreindum takmörkum. Ref hefur fækkað víðast hvar í heimkynnum sínum annars staðar en á Íslandi á undanförnum árum.

Heimild:  Aagot V. Óskarsdóttir (ritstj.) (2011). Náttúruvernd. Hvítbók um löggjöf til verndar náttúru Íslands. Reykjavík: Umhverfisráðuneytið.