Einkenni

Ísland er strjálbýlt og landnotkun hér á landi mjög frábrugðin og háð öðrum tak- mörkunum en t.d. annars staðar í Evrópu. Þar er næstum helmingur lands tekinn undir fjölbreyttar landbúnaðarnytjar. Samkvæmt Corine flokkunarkerfinu falla aðeins um 2,4% af flatarmáli Íslands undir landbúnaðarland og þar af næstum allt (97%) í flokkinn tún og bithagi. Akuryrkja er aðeins stunduð á um 0,04% landsins. Þétt byggð (continuous urban fabric) myndar svo litla kjarna á Íslandi að þeir mælast ekki samkvæmt Corine staðlinum. Byggðin myndar að mestu mjótt belti meðfram ströndinni og inn eftir fjörðum og dölum en meira að segja þar eru stór óbyggð svæði inn á milli, einkum jökulsandar og hraun. Ríflega 97% af öllu ræktuðu landi á Íslandi er undir 200 m hæð yfir sjó. Næstum öll byggð er neðan við 200 m h.y.s. en um 75% landsins liggja hærra. Búseta er aðeins á um fjórðungi landsins og meira en helmingur hefur í raun aldrei verið numinn af mönnum í þeim skilningi að fólk hafi haft þar varanlega búsetu.

Svigrúm til fjölbreyttrar landnotkunar takmarkast í fyrsta lagi af loftslagi. Ís- land er t.d. á mörkum þess að hér megi fullþroska korn. Kornrækt, fyrst og fremst ræktun byggs, hefur þó aukist jafnt og þétt frá 1990 og var bygg ræktað á um 3500 hekturum árið 2009. Ræktunarskil- yrði eru best á Suðurlandi, og í Eyjafirði og Skagafirði. Í öðru lagi takmarkar undir- lag möguleika til ræktunar og annarrar landnotkunar. Um 10% landsins eru t.d. þakin nútímahraunum með litla rótfestu fyrir plöntur og takmarkaða möguleika til landbúnaðarnytja. Loks verður að nefna þá stórkostlegu eyðimerkurmyndun sem hér hefur orðið frá landnámi og fylgdi í kjölfar þess að skógur og kjarr eyddust. Náttúrulegt landnám og gróðurframvinda á örfoka landi er mishröð en reynslan sýnir að víða er hún lítil eða engin meðan slík svæði eru nýtt sem beitiland fyrir búfé.

Áhrif mannsins á lífríki Íslands endurspegla að mörgu leyti dæmigerða en mun lengri sögu umhverfisbreytinga í öðrum löndum Evrópu. Í kjölfar fastrar búsetu með jarðyrkju og kvikfjárhaldi hurfu fjölbreytt vistkerfi skóga en í staðinn komu graslendi, akurlendi og heiðar til fjalla. Munurinn er þó sá að á Íslandi fylgdi gróður- og jarðvegseyðing í kjölfarið þannig að algróið land breyttist í eyðimörk með mjög takmarkaða frumframleiðni og nær engan lífrænan jarðveg. Með vélvæðingu, notkun tilbúins áburðar og kynbótum í landbúnaði urðu til ný, manngerð vistkerfi sem einkenndust af tegundafátækt og í nútíma þaulræktun er hið upprunalega vistkerfi að miklu leyti horfið. Á Íslandi er ræktunarstig almennt lágt og hreinræktun sem einkennir nútíma akuryrkju og plantekruræktun þekur aðeins óverulegan hluta landsins. Búfjárbeit og túnrækt ganga ekki jafn nærri líffræðilegri fjölbreytni og fela ekki í sér jafn róttæk umskipti á lífríki. Að þessu leyti til má segja að íslenskur landbúnaður hafi haft minni áhrif á lífríki en evrópskur landbúnaður. Stór hluti Íslands ber náttúrulegt yfirbragð þótt landið sé fjarri því að geta talist ósnortið. Ræktað land er víða eins og litlar eyjar í landi sem ber náttúrulegt yfirbragð, öfugt við þéttbýl lönd Evrópu þar sem sæmilega náttúrulega útlítandi svæði eru einangraðar eyjar í hafsjó af manngerðu landi. Mjög stór hluti landsins ber merki langvarandi búfjárbeitar og votlendi í byggð hefur að miklu leyti verið ræst fram.

Heimild:  Aagot V. Óskarsdóttir (ritstj.) (2011). Náttúruvernd. Hvítbók um löggjöf til verndar náttúru Íslands. Reykjavík: Umhverfisráðuneytið.