Við kynntumst Leave No Trace lífsreglunum á alheimsmóti skáta í Bretlandi árið 2007 og höfum ferðast síðan Án Ummerkja um íslenska náttúru.

Það var svo árið 2012 að okkur gafst tækifæri á að senda fulltrúa á námskeið á vegum NOLS (National Outdoor Leadership Scholl) í Yellowstone USA. Svokallað Master Educator námskeið sem gefur þátttakendum réttindi til að halda námskeið sem eru vottuð af Leave No Trace Center For Outdoor Ethics. Fulltrúi okkar var Guðmundur Björnsson, sem hefur mikla og langa reynslu af útivist og ferðalögum bæði hér heima og erlendis. Guðmundur er með meistarapróf í ferðamálafræði frá HÍ og leiðsögumaður frá EHÍ.
Að loknu námskeiðinu í Yellowstone var hafist handa við þýðingu efnis og gerð þessarar heimasíðu. Fékk verkefnið góðan stuðning frá Menntamála-og Umhverfisráðuneytinu. Þegar hafa verið haldin þó nokkur námskeið fyrir nemendur og ferðamenn. Er það von okkar að unnt verði að breiða boðskapinn út víðar með námskeiðahaldi á komandi misserum.
Efni á þessa heimasíðu er sótt víða að og er það von okkar að hún muni vaxa og dafna þegar fram líða stundir. Heimilda ef þær eru kunnar er getið neðst á hverri síðu. En til að gera texta læsilegra er þó ekki fylgt ströngustu kröfum þar um. Allar ábendingar um það sem betur má fara eru vel þegnar. Allt myndefni er eign Án Ummerkja.





