Hugtakið visthæf ferðamennska kom fram á sjónarsviðið seint á níunda áratugnum og er fyrsta skilgreiningin eignuð mexíkóska arkitektinum Hector Ceballos-Lascuraín. Með tímanum hafa hugmyndir fræðimanna um hugtakið þó verið að breytast og eru fjöldamargar skilgreiningar til í dag. Hefur visthæf ferðamennska færst frá því að vera ákveðið form ferðamennsku drifin áfram af ákveðnum hvötum til einhvers sem ferðamaður gæti gert í einn dag þegar rignir á ströndinni.

Á seinni árum hafa komið fram fjöldamargar skilgreiningar á visthæfri ferðamennsku sem lýsa vel skorti á samstöðu meðal þjóða og fræðimanna um hvað visthæf ferðamennska stendur fyrir. En með því að rýna í þær má sjá ákveðin samhljóm.

Visthæf ferðamennska nýtir sér umhverfi og náttúru á þrennan hátt:

  1. með því að umhverfi og náttúra áfangastaðar er vettvangur ferðamennskunnar. Þar koma ferðamenn til að skoða eitthvað og upplifa sem er öðruvísi en heima hjá þeim.
  2. með því að þar fræðist ferðamenn um náttúru og umhverfi. Þannig öðlist þeir reynslu og upplifun með samskiptum sem bætir líf þeirra og jafnvel breytir því.
  3. með því að ferðamennirnir ekki bara njóti heldur leggi þeir eitthvað til verndunar eða varðveislu umhverfisins.

Samkvæmt TIES (The International Ecotourism Society)  er höfuðáhersla visthæfrar ferðamennsku eftirtaldir níu þættir:

  1. Hefur lágmarks áhrif
  2. Grundvallast á umhverfis- og menningarhyggju
  3. Skapar ánægjulega upplifun fyrir bæði gesti og heimamenn
  4. Skapar beinan hagrænan ávinning til verndunar
  5. Skapar hagrænan ávinning og aðild heimamanna
  6. Skapar næmni fyrir pólitísku, umhverfislegu og menningarlegu andrúmslofti heimafólks
  7. Veitir gestum eftirminnilega túlkandi reynslu sem gefur þeim betri innsýn og næmniá samfélagið sem er heimsótt
  8. Gætir að lágmarks áhrifum innviða, við hönnun, byggingu og í rekstri þeirra
  9. Viðurkennir réttindi og andleg viðhorf innfæddra og starfar með þeim að valdeflingu þeirra

Sú kenning sem við hjá Án Ummerkja aðhyllumst og störfum eftir birtist í skýrslu til norrænu ráðherranefndarinnar um visthæfa ferðamennsku á Norðurlöndum, “Ekoturism i Norden” árið 1998. Þar segir að „visthæf ferðamennska er ferðamennska sem stunduð er í náttúrulegu umhverfi og á að vera í sátt við náttúru, menningu og íbúa ferðamannastaða. Hún á að vera sjálfbær, hafa lítil áhrif á umhverfið, vera fræðandi og hafa jákvæð hagræn áhrif þar sem hún er stunduð” (Anna Dóra Sæþórsdóttir, ofl, 1998, 15).

Heimildir:

Anna Dóra Sæþórsdóttir, Guðrún Gísladóttir, Grönningsæter, G., Zettersten, G. og Högmander, J. (1998). Ekoturiosm i Norden: Exemple från Island, Norge, Sverige och Finland. Kaupmannahöfn: Nordisk Ministerråd.

Boo, E. (1990). Ecotourism: Potential and Pitfalls. Baltimore: Worldwide Fund for Nature USA

Hall, C.M. og Boyd, S. (ritstj.). (2005). Nature Based Tourism in peripheral areas. Bristol: Channel View Publications.

TIES (The International Ecotourism Society) (2015). Principles of Ecotourism.