Á Íslandi eru þrír þjóðgarðar, þjóðgarðurinn á Þingvöllum, Vatnajökulsþjóðgarður og þjóðgarðurinn Snæfellsjökull. Einungis sá síðastnefndi er stofnaður á grundvelli heimildar í náttúruverndarlögum. Um hina tvo hafa verið sett sérlög. Því er lagalegur grundvöllur þjóðgarðanna ólíkur og sama á við um stjórnsýsluumgjörð þeirra. Þeir skapa því ekki samstæðan flokk verndarsvæða samkvæmt íslenskum lögum.

Þjóðgarðurinn á Þingvöllum

Þjóðgarðurinn á Þingvöllum var friðlýstur með sérlögum 1930, sem helgistaður og sameiningartákn íslensku þjóðarinnar og sem þjóðgarður með lögum nr. 47/2004. Í 3. gr. laganna segir að land þjóðgarðsins skuli vera friðað í því skyni að varðveita ásýnd þess sem helgistaðar þjóðarinnar og til að viðhalda eins og kostur sé hinu upprunalega náttúrufari. Almenningur skuli eiga kost á að njóta svæðisins samkvæmt þeim reglum sem Þingvallanefnd setur. Friðunin tekur til jarðmyndana, gróðurs og dýralífs og einnig er kveðið á um vernd yfirborðsvatns og grunnvatns sem og lífríkis Þingvallavatns. Þjóðgarðurinn á Þingvöllum er undir stjórn Þingvallanefndar. Framkvæmdir innan þjóðgarðsins eru háðar leyfi nefndarinnar og er henni heimilt að binda leyfi þeim skilyrðum sem hún telur nauðsynleg vegna friðunar samkvæmt lögunum. Nánari reglur um þjóðgarðinn, verndun og meðferð hans setur Þingvallanefnd með reglugerð sem forsætisráðherra staðfestir. Ekki er kveðið á um gerð verndaráætlunar fyrir þjóðgarðinn. Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. laganna er hið friðlýsta land eign íslensku þjóðarinnar og er sett bann við sölu þess og veðsetningu. Þingvellir voru samþykktir á heimsminjaskrá Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNESCO) árið 2004 vegna menningarminja.

Vatnajökulsþjóðgarður

Fyrsti þjóðgarðurinn, sem stofnaður var samkvæmt lögum um náttúruvernd, var þjóðgarðurinn í Skaftafelli árið 1967. Næst var stofnaður þjóðgarður í Jökulsárgljúfrum árið 1973. Bæði þessi svæði eru nú hluti Vatnajökulsþjóðgarðs. Lög um Vatnajökulsþjóðgarð voru sett vorið 2007 (lög nr. 60/2007) og í júní 2008 var þjóðgarðurinn stofnaður formlega við gildistöku reglugerðar um hann. Vatna- jökulsþjóðgarður nær yfir um 12.000 km2 svæði eða um 12% af flatarmáli landsins. Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. laganna um Vatnajökulsþjóðgarð getur landsvæði innan hans ýmist verið í eigu íslenska ríkis- ins eða í eigu annarra aðila enda liggi fyrir samþykki eiganda viðkomandi lands um að það verði hluti þjóðgarðsins. Langstærstur hluti svæðisins sem þjóðgarðurinn tekur til hefur verið úrskurðað þjóðlenda og er því undir eignarráðum ríkisins. Samkvæmt 2. gr. laganna er markmiðið með stofnun þjóðgarðsins að vernda landslag, lífríki, jarðmyndanir og menningarminjar svæðisins og gefa almenningi kost á að kynnast og njóta náttúru þess og sögu. Í lögunum segir jafnframt að auðvelda skuli almenningi aðgengi að þjóðgarðinum eftir því sem unnt er án þess að náttúra hans spillist og veita fræðslu um náttúru, sögu og mannlíf svæðisins. Vatnajökulsþjóðgarður er ríkisstofnun og fer sérstök stjórn með stjórn hennar og umsjón með rekstri þjóðgarðsins.

Í verndaráætlun skal gerð grein fyrir markmiðum verndar á einstökum svæðum innan þjóðgarðsins, einstökum verndaraðgerðum, landnýtingu og mann- virkjagerð, vegum, reiðstígum, göngubrúm og helstu gönguleiðum, umferðar- rétti almennings, aðgengi ferðamanna að svæðinu og veiðum. Sveitarstjórnir eru bundnar af efni verndaráætlunar við gerð skipulagsáætlana fyrir landsvæði innan þjóðgarðsins. Stjórnunar- og verndaráætlun fyrir Vatnajökulsþjóðgarð var staðfest af umhverfisráðherra 28. febrúar 2011. Sumarið 2011 var Langasjó og hluta Eldgjár bætt við þjóðgarðin. Í kjölfarið var samþykkt ný stjórnunar- og verndaráætlun 12. júlí 2013.

Í lögum um Vatnajökulsþjóðgarð eru settar fram meginreglur um umgengni og umferð í þjóðgarðinum. Nánari reglur um þjóðgarðinn eru settar í reglugerð, m.a. um landnýtingu, þ.m.t. veiðar, meðferð skotvopna, búfjárbeit, eyðingu vargs, mörk rekstrarsvæða, umgengni, umferð, samgönguleiðir og mengunarvarnir.

Innan Vatnajökulsþjóðgarðs eru auk eldri þjóðgarðanna í Skaftafelli og Jökulsárgljúfrum friðlöndin Esjufjöll og Askja. Hafa auglýsingar um friðlýsingu þessara svæða verið felldar úr gildi, sbr. reglugerð um Vatnajökulsþjóðgarð með síðari breytingum. Athugun á verndarskilmálum þessara staða samkvæmt lögum og reglugerð um Vatnajökulsþjóðgarð leiðir í ljós að vernd svæðanna virðist ekki vera lakari innan þjóðgarðsins en samkvæmt friðlýsingarskilmálum auglýsinganna. Stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs hefur að auki verið falin umsjón nokkurra annarra friðlýstra svæða, þ.e. Dettifoss, Selfoss og Hafragilsfoss og nágrenni í Öxafjarðarhreppi, Herðubreiðarfriðlands, Hvannalinda, Lónsöræfa og Kringisárrana. Um þetta var gerður samningur á grundvelli 30. gr. nvl. þann 6. júní 2008.

Kort af Vatnajökulsþjóðgarði

Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull

Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull var stofnaður árið 2001 og er flatarmál hans um 170 km2. Þjóðgarðurinn er stofnaður á grundvelli náttúruverndarlaga og lýtur hann stjórn Umhverfisstofnunar. Um þjóðgarðinn hefur verið sett sérstök reglugerð, rg. nr. 568/2001, sbr. 928/2005. Ekki er þar sérstaklega fjallað um markmiðið með stofnun og starfsemi hans. Reglugerðin hefur m.a. að geyma reglur um réttindi og skyldur gesta og um starfsemi í þjóðgarðinum. Mannvirkjagerð, efnistaka og hvers konar annað jarðrask er háð leyfi Umhverfisstofnunar og sama er að segja um hvers konar atvinnustarfsemi og samkomuhald. Það er í verkahring Umhverfisstofnunar að gera tillögu að verndaráætlun og landnotkun fyrir þjóðgarðinn en ekki er kveðið nánar á um efni verndaráætlunar. Umhverfisráðherra staðfesti verndaráætlun fyrir þjóðgarðinn Snæfellsjökul 15. júní 2010. Tvö friðlönd, Búðahraun og ströndin við Arnarstapa og Hellna, heyra undir stjórn þjóðgarðsins, sem og eitt náttúruvætti, Bárðarlaug.

Kort af Snæfellsjökulsþjóðgarði

Mörk friðlýstra svæða á Íslandi

 

Heimild:

Aagot V. Óskarsdóttir (ritstj.) (2011). Náttúruvernd. Hvítbók um löggjöf til verndar náttúru Íslands. Reykjavík: Umhverfisráðuneytið.