Ísland er einangruð úthafseyja norður við heimskautsbaug og eitt eldvirkasta svæði jarðar. Það ber þess merki að hafa verið meira eða minna ísi hulið um tveggja milljóna ára skeið þar til fyrir um 10.000 árum. Enn eru hér stærstu jöklar utan heimskautasvæðanna og í suðurhlíðum Vatnajökuls teygja skriðjöklar sig niður á láglendi. Óvíða utan Íslands er jafn auðvelt að sjá hvernig meginöfl jarðar, eldur, ís, vatn og vindur, móta og slípa yfirborð og ýmist byggja upp eða sverfa niður. Hér finnast nánast allar gerðir þekktra eldfjalla og samspil elds og íss eykur enn á fjölbreytni gosminja. Landslag á Íslandi dregur mun ríkari dám af jarðfræði- legum ferlum (s.s. eldvirkni og gliðnun) en landslag í flestum löndum sem gjarnan er mótað af landbúnaði og ræktun. Ísland er auðugt af vatni, fallvötn eru mörg og fjölbreytileg og fá lönd eiga eins mikið af góðu grunnvatni. Fossar eru margir og fjölbreyttir.

Lífríki landsins er mótað af loftslagi, einangrun og af þeim tiltölulega stutta tíma sem liðinn er frá lokum síðasta jökulskeiðs. Flóra og fána eru fremur tegundafátæk en á hinn bóginn eru hér stórir stofnar nokkurra dýrategunda, einkum fugla og laxfiska. Hér eru stærstu fuglabjörg í Norður-Atlantshafi, stór hluti Evrópustofns og stundum heimsstofns sumra fuglategunda á sér varpstöðvar á Íslandi, t.d. stelkur, spói, álft, lundi, teista og álka. Stofnar laxa og urriða eru óvíða eins stórir og í jafn góðu ásigkomulagi og hér á landi. Á vatnasviði Þjórsár og Hvítár-Ölfusár er að finna stærstu laxastofna á landinu og jafnframt stærstu laxastofna sem heimkynni hafa í Norður-Atlantshafi. Ísland sker sig frá öðrum Evrópulöndum sem flest eru þéttbýl og hafa mótast af árþúsundagömlum landbúnaði og ræktun. Landið er strjálbýlt og meira en helmingur þess hefur í raun aldrei verið numinn í þeim skilningi að fólk hafi haft þar fasta búsetu. Ræktunarstig er almennt lágt. Gróður- og jarðvegseyðing hefur verið gríðarleg á þeim ríflega ellefu öldum sem liðnar eru frá landnámi og gróður ber víða merki langvarandi og þungrar búfjárbeitar.

Ísland liggur á mörkum hlýrra og kaldra sjávarstrauma og blöndun næringar- efna sem af því leiðir skapar lífríkinu óvenju hagfelld skilyrði í hafinu umhverfis landið. Hér við land er að finna ein gjöfulustu þorskfiskamið jarðar og á íslensku hafsvæði dvelja um lengri eða skemmri tíma á þriðja tug spendýra, þar á meðal stærsta dýr jarðar fyrr og síðar, steypireyðurin.

Íslenskri náttúru má skipta í nokkra meginþætti, þar á meðal jarðmyndanir, vatn (jökla, straumvötn, stöðuvötn, grunnvatn og jarðhita), lífríki (tegundir, vistkerfi og jarðveg) og landslag.

Heimild:  Aagot V. Óskarsdóttir (ritstj.) (2011). Náttúruvernd. Hvítbók um löggjöf til verndar náttúru Íslands. Reykjavík: Umhverfisráðuneytið.

Filter Projects