Ekki er að finna í íslenskum lögum almenna skilgreiningu á hugtakinu almannarétti. Samkvæmt lögfræðiorðabókinni er almannaréttur talinn vera sá réttur sem almenningi er áskilinn til frjálsra afnota af landi og landsgæðum, til farar um land og vötn o.fl. skv. ákvæðum í náttúruverndarlögum. Í grein sinni um almannarétt skilgreinir Páll Sigurðsson lögfræðiprófessor hugtakið sem réttindi manna til yfirferðar um landið og umgengni við náttúruna annars vegar og réttarreglur þær sem um það efni gilda hins vegar.

Uppruna almannaréttar má rekja til reglna Rómaréttar um sameiginleg gæði. Þær byggðu á þeirri hugmynd að sum gæði eins og andrúmsloftið, hafið og sjávarströndin væru svo mikilvæg í samfélagi manna að þau yrðu að vera aðgengileg almenningi til frjálsra og óheftra afnota. Talið er að þessi réttur hafi verið í gildi um langt skeið í Rómaríki áður en reglan var tekin upp í lögbók Justinianusar á 6. öld. Í fordæmisrétti Breta þróuðust þessar hugmyndir í kenninguna um „public trust“ (e. public trust doctrine), en hún felur í sér að það sé hlutverk ríkjandi stjórnvalda á hverjum tíma að gæta þess að almenningur eigi greiðan aðgang að þessum mikilvægu gæðum. Kenningunni hefur verið talsvert beitt í Bandaríkjunum bæði í sambandi við auðlindanýtingu og einnig að því er varðar aðgengi almennings að náttúru og náttúrugæðum.

Hugmyndina um frjálsan aðgang almennings að mikilvægum náttúrulegum gæðum má finna í löggjöf allflestra Vestur-Evrópuríkja sem byggja á settum lögum, m.a. Noregs og Svíþjóðar. Á Norðurlöndunum á þessi réttur víðast hvar langa sögu og á sér rætur í fornum venjurétti.

Almannaréttur á hinum Norðurlöndunum

Danmörk

Í Danmörku er öllum heimilt að ganga meðfram strönd, sé hún vaxin fjörugróðri. Ef hún er hins vegar ræktað land er öll umferð um hana bönnuð. Um skóga í eigu hins opinbera og þá sem opinber vegur liggur að, er gangandi fólki heimil för. Um skóga í einkaeigu gilda mismunandi reglur eftir stærð þeirra, en almennt er sú krafa gerð að menn fylgi stígum, ef þeim er á annað borð heimil för um þá. Auk þess er gangandi fólki heimil för um óræktuð landsvæði, sem opinber vegur liggur að. Sé landið í einkaeign er för einungis heimil frá klukkan sjö á morgnana til sólseturs. Samkvæmt dönskum lögum er almennt óheimilt að fara nær íbúðarhúsi en 150 m og för um girt eignarland er óheimil. Almennt er umferð á hjólum eða vélknúnum farartækjum bönnuð utan þjóðvega.

Noregur

Norskur almannaréttur er að mörgu leyti líkur íslenskum rétti. Þó virðist umferðar- og dvalarréttur vera rýmri þar en hérlendis. Um stærstan hluta almannaréttar gilda sérstök lög, lov om friluftslivet, nr.16/1957. Þar er greint á milli “innmark” og “utmark” í 1. gr. laganna. Til “innmark” teljast húsalóðir hvers konar, ræktuð lönd og önnur álíka svæði þar sem líklegt er að umferð almennings valdi eiganda óhagræði, en “utmark” telst allt óræktað land.

Meginreglan er sú að almenningi er ekki heimil för um “innmarken” en um “utmarken” er almenningi heimil för fótgangandi, og á hestum og reiðhjólum um stíga og vegi. Samkvæmt lögunum er umferð vélknúinna farartækja heimil um þjóðvegi svo og umferð hestvagna og leyfilegt er að stöðva ökutæki utan vega í “utmarken” ef, ekki er hætta á tjóni eða óþægindum.

Svíþjóð

Í sænskum rétti virðist ekki vera mælt beint um umferðarrétt almennings. Hins vegar er gert ráð fyrir rétti almennings til útivistar í sænsku náttúrverndarlögunum. Með gagnályktun frá ákvæðum sænsku hegningarlaganna hefur verið ályktað að almenningi sé heimil för um allt land, sem ekki telst húsalóð í skilningi hegningarlaganna. Má því ætla að sambærilegar reglur gildi í Svíþjóð og í Noregi um umferðarrétt fótgangandi fólks. Umferðarréttur á ökutækjum er nánast sá sami og í Noregi.

Finland

Í Finnlandi hefur á sama hátt og í Svíþjóð verið gagnályktað frá ákvæðum þarlendra hegningarlaga, sem leggja refsingu við því að menn leggi leið sína ólöglega yfir húsalóð og banna för í óleyfi yfir akur og engi, þannig, að umferð fótgangandi á öðrum svæðum sé heimil. Umferð ökutækja er heimil á vegum og stígum, en einnig er heimilt að aka utan vega ef ekki er hætta á tjóni vegna akstursins.

Almannaréttur í Bandaríkjunum

Í fordæmisrétti Breta (e. common law) var talið að konungurinn hefði með höndum varðveisluhlutverk, public trust, sem fólst í því að tryggja almenningi frjálsan aðgang að sjávarströnd, vatns- og árbökkum. Þegar þrettán ríki Norður-Ameríku sögðu sig úr sambandi við Bretland og lýstu yfir sjálfstæði tók hvert ríki fyrir sig við varðveisluhlutverkinu af bresku krúnunni. Í athyglisverðum dómi frá 1892 var fjallað um gildi og umfang public trust kenningarinnar í Bandaríkjunum og hefur dómurinn verið talinn leiðandi dómur um kenninguna. Málavextir voru þeir að þing Illinois samþykkti með lögum árið 1869 úthlutun lands meðfram Michigan vatninu til lestarfélags sem var að hluta til í einkaeign. Um var að ræða botn vatnsins og landsvæði allt að einni mílu frá vatnsborðinu, þ.m.t. hluta af miðbæ Chicago. Árið 1873, eða fjórum árum síðar, ákvað þingið að rifta gjörningnum með því að ógilda afsalið og urðu af þessu málaferli sem enduðu fyrir hæstarétti Bandaríkjanna. Í niðurstöðu hæstaréttar kom fram að skilyrðislaust afsal sem fór í bága við rétt almennings á grundvelli public trust væri óheimilt. Í málinu kom skýrt fram að ríkisvaldinu var heimilt að selja landið en það mátti hins vegar ekki fyrirgera rétti almennings til umferðar og afnota af því.

Síðustu 40 árin hafa margir merkilegir dómar fallið í Bandaríkjunum þar sem tekist hefur verið á um eðli og umfang almannaréttar og ekki síst takmarkanir á heimild til að ráðstafa landsvæði sem ríkisvaldinu ber að varðveita á grundvelli public trust. Með tímanum hefur gildissvið almannaréttarins einnig rýmkað og nær hann í sumum ríkjum til réttarins til ósnortinnar náttúru, náttúruverndar, verndunar vistkerfa og útivistar. Nú hefur almannarétturinn eins og hann er skil- greindur í public trust kenningum verið lögfestur í flestum ríkjum Bandaríkjanna þar sem gjarnan eru settar hömlur á aðgerðir ríkisvaldsins sem fara í bága við hann.

Almannaréttur skv. núgildandi náttúruverndarlögum

Í III. kafla núgildandi náttúruverndarlaga nr. 44/1999 er að finna allítarleg ákvæði um rétt almennings til að fara um landið. Í 1. mgr. 12. gr. er sett fram sú meginregla að almenningi sé heimil för um landið og dvöl þar í lögmætum tilgangi. Þessum rétti fylgir skylda til að ganga vel um náttúru landsins og sýna ýtrustu varúð þannig að henni verði ekki spillt, sbr. 2. mgr. greinarinnar. Frekari fyrirmæli vegna farar um landið og umgengni er að finna í 13. gr., m.a. þau að almenningur verði að sýna landeiganda og öðrum rétthöfum lands fulla tillitssemi og virða hagsmuni þeirra. Boðið er að farið skuli eftir merktum leiðum og vegum eftir því sem auðið er og hlífa girðingum t.d. með því að nota hlið. Kveðið er á um sérstaka aðgát í nánd við búsmala, selalátur, varplönd fugla, veiðisvæði og veiðistaði. Þá er tekið fram að för manna um landið sé ekki á ábyrgð eiganda lands eða rétthafa að öðru leyti en því sem leiðir af ákvæðum annarra laga og almennum skaðabótareglum.

Í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að núgildandi náttúruverndarlögum sést að frumvarpinu var upphaflega ætlað að færa almannaréttinn aftur til þess er gilti samkvæmt náttúruverndarlögum nr. 48/1956 og þar með draga úr þeirri takmörkun réttarins sem fólst í náttúruverndarlögum nr. 47/1971. Í samræmi við þetta var í 14. gr. frumvarpsins mælt fyrir um að mönnum væri heimilt, án sérstaks leyfis landeiganda eða rétthafa, að fara gangandi, á skíðum, skautum og óvélknúnum sleðum eða á annan sambærilegan hátt um óræktað land og dvelja þar. För um ræktað land, þ.e. garða, tún og akra, og dvöl þar var áfram háð sam- þykki eiganda þess eða rétthafa.

Ákvæðum 14. gr. var breytt í meðförum Alþingis að tillögu umhverfisnefndar. Lagði hún til að takmarkanir yrðu settar á heimild manna til að fara án sérstaks leyfis landeiganda um óræktað land og hafa þar dvöl. Fól breytingin í sér  að eiganda eða rétthafa eignarlands í byggð væri heimilt að takmarka eða banna með merkingum við hlið og göngustiga för manna og dvöl á afgirtu óræktuðu landi. Í nefndaráliti umhverfisnefndar segir um þessa tillögu að ýmsar ástæður geti verið fyrir því að þessir aðilar telji ástæðu til að nýta heimildina. Megi þar nefna beit eða aðra notkun á landinu. Í nefndarálitinu er hugtakið byggð skýrt svo að það eigi við byggt svæði eða land, hvort sem er þéttbýlt eða strjálbýlt. Með hliðsjón af þessu er ljóst að upphaflegt markmið frumvarpsins um rýmkun almannaréttarins náði ekki fram að ganga.

Umferð gangandi manna

Samkvæmt núgildandi lögum er almannarétturinn mismunandi ríkur eftir því hvort farið er um ræktað eða óræktað landsvæði. Þá er gerður greinarmunur á því hvort óræktað land sé í byggð eða utan byggðar. Eftirfarandi listi sýnir hversu víðtækur réttur almennings er til farar og eftir atvikum dvalar á landsvæðum sem falla undir hina ólíku flokka. Hér er átt við för gangandi manna og þeirra sem fara um á skíðum, skautum, sleðum eða á annan sambærilegan hátt.

  • Óræktað land utan byggðar. Almenningi er heimil för og dvöl á óræktuðu landi utan byggðar án sérstaks leyfis landeiganda eða rétthafa.
  • Óræktað eignarland í byggð. Almenna reglan er að almenningi sé heimil för og dvöl en eiganda eða rétthafa er þó heimilt að takmarka eða banna för og dvöl á afgirtu óræktuðu landi með því að koma upp merkingum við hlið og göngustiga.
  • Ræktað land. Almenningur þarf samþykki eiganda eða rétthafa til að fara um og dvelja á ræktuðu landi. Til ræktaðs lands teljast garðar, tún og akrar, þ.e. land sem hefur verið ræktað með jarðvinnslu, sáningu og reglulegri áburðargjöf, land í skógrækt eða land sem hvorki hefur þarfnast jarð- vinnslu né sáningar til að verða slægjuland en er það vegna áburðargjafar og er notað sem slíkt, sbr. 9. tölul. 3. gr.Heimild til farar og dvalar í náttúrulegum birkiskógum og kjarrlendi fer eftir því hvort um er að ræða land utan byggðar eða í byggð, sbr. listann hér að framan. Sérstakar reglur gilda um umferð um skógræktarsvæði þar sem skógræktin er styrkt með opinberu fé. Skal þá kveða svo á í samningi við eiganda eða rétthafa að hann tryggi almenningi frjálsa för um landið eftir að fyrstu stigum skógræktar er lokið. Skal hann setja um þetta reglur.

Umferð hjólandi og ríðandi manna

Fjallað er um umferð hjólandi og ríðandi vegfarenda í 15. og 16. gr. Er meginreglan sú að þeir skulu fylgja vegum og skipulögðum reiðhjólastígum og reiðstígum eins og kostur er. Sérstakar reglur gilda um för ríðandi manna um hálendið og önnur lítt gróin svæði og er þeim skylt að hafa tiltækt nægilegt aðflutt fóður fyrir hross sín. Heimilt er að slá upp aðhöldum eða næturhólfum fyrir hrossin enda valdi það ekki spjöllum á náttúrunni en áskilið er leyfi eiganda eða rétthafa þegar um eignarland er að ræða. Á hálendi skal hólfum valinn staður á ógrónu landi sé þess kostur. Þegar farið er um náttúruverndarsvæði er ríðandi mönnum skylt að hafa samráð við landverði eða umsjónaraðila, þ.e.a.s. ef þeir eru starfandi á svæðinu.

Í reglugerð um takmarkanir á umferð í náttúru Íslands nr. 528/2005 er auk þess kveðið á um að þegar farið sé eftir gömlum þjóðleiðum skuli ekki teyma fleiri hross en svo að þau rúmist innan slóðar, ellegar reka hross þannig að þau lesti sig. Jafnframt er þar bannað að reka hrossastóð yfir gróið land þannig að náttúruspjöll hljótist af eða hætta skapist á náttúruspjöllum.

Umferð um vötn

Skv. lögum  nr. 131 frá 2011 er öllum er heimil för, þ.m.t. á farartækjum, um vötn, einnig á ísi, með þeim takmörkunum sem lög kveða á um, þó þannig að það valdi ekki truflun á veiðum manna. Umhverfisráðherra getur í reglugerð sett takmarkanir við umferð vélknúinna báta og annarra vélknúinna farartækja um vötn og vatnasvæði.

Allir sem fara um vötn eða nota þau til sunds og baða, sbr. 11. gr., hafa rétt til þeirra afnota af vatnsbökkum sem eru nauðsynleg vegna umferðar um vötn en gæta skulu þeir varkárni og forðast að valda skemmdum á landi, mannvirkjum eða veiðitækjum í vatni eða við það.

Heimild til að takmarka umferð í óbyggðum

Í 1. mgr. 19. gr. náttúruverndarlaga er Umhverfisstofnun veitt heimild til að takmarka umferð tímabundið í óbyggðum eða loka svæðum þar í verndarskyni enda hafi stofnunin að jafnaði gert grein fyrir fyrirhugaðri lokun í skýrslu samkvæmt 2. mgr. Um er að ræða skýrslu sem gera skal á hverju hausti á grundvelli úttektar á ástandi svæða í óbyggðum. Slíkar skýrslur hafa ekki verið gerðar frá setningu laga nr. 44/1999. Ákvörðun um takmörkun umferðar eða lokun svæða skal staðfest af ráðherra og birt í Stjórnartíðindum. Hugtakið óbyggð er ekki skýrt sérstaklega í náttúruverndarlögum. Auk 19. gr. er það notað í tveimur greinum laganna, þ.e. í c-lið 2. mgr. 6. gr. og í 2. mgr. 20. gr. Síðastnefnda greinin fjallar um heimild til að setja niður viðlegutjöld í óbyggðum. Hugtakið var ekki notað í 20. gr. eins og hún var í upphaflega frumvarpinu en breyting var gerð á greininni í meðförum Alþingis að tillögu umhverfisnefndar. Í nefndaráliti hennar er hugtakið óbyggð skýrt á svofelldan hátt: „Með óbyggðum er einkum átt við hálendi eða öræfi þar sem fólk býr ekki að jafnaði og ekki er að finna bústaði eða bæi manna.“ Þessi skilgreining samræmist venjulegri notkun orðsins en samkvæmt Íslenskri orðabók merkir orðið óbyggð„óbyggt land, (einkum) hálendi, öræfi“.

Sérstakar reglur um för og dvöl á náttúruverndarsvæðum

Samkvæmt 4. mgr. 32. gr. nvl. er Umhverfisstofnun eða öðrum umsjónaraðila náttúruverndarsvæðis heimilt að setja sérstakar reglur um umferð manna og dvöl á náttúruverndarsvæðum og um önnur atriði er greinir í III. kafla laganna um almannarétt, umgengni og útivist. Miðað við skilgreiningu laganna á hugtakinu náttúruverndarsvæði getur þessi heimild náð til friðlýstra svæða, annarra svæða og náttúrumyndana sem eru á náttúruminjaskrá og afmarkaðra svæða sem njóta verndar samkvæmt öðrum lögum vegna náttúru eða landslags. Slíkar reglur ganga framar almennum reglum. Í athugasemdum við 32. gr. í frumvarpi því er varð að nvl. nr. 44/1999 kemur fram að 4. mgr. sé nýmæli. Þá segir að eðlilegt þyki að á náttúruverndarsvæðum geti gilt aðrar og strangari reglur um umferð og dvöl almennings en annars staðar. Í 60. gr. laganna er fjallað um efni friðlýsingar og er þar gert ráð fyrir að meðal þess sem fjallað skuli um í friðlýsingu sé umferð og umferðarréttur almennings, sbr. d-lið 1. mgr. 60. gr.

Heimild til að tjalda

Í 20. gr. náttúruverndarlaga er fjallað um heimild til að tjalda. Í greininni er annars vegar gerður greinarmunur á alfaraleiðum og svæðum utan alfaraleiða og hins vegar á alfaraleið í byggð og alfaraleið í óbyggðum. Mismunandi reglur gilda svo um heimild til að tjalda á óræktuðu landi í byggð og ræktuðu landi. Þessum reglum má lýsa með eftirfarandi hætti:

  • Við alfaraleið í byggð er heimilt að tjalda hefðbundnum viðlegutjöldum til einnar nætur á óræktuðu landi. Með byggð er átt við byggt svæði eða land, hvort sem er þéttbýlt eða strjálbýlt. Hér gildir þó líka heimild landeiganda til að takmarka eða banna með merkingum för manna og dvöl á afgirtu óræktuðu landi, sbr. 1. mgr. 14. gr. Í vissum tilvikum þarf að leita leyfis land- eiganda eða rétthafa en það er í fyrsta lagi ef tjaldað er nærri bústöðum manna eða bæ, í öðru lagi ef um fleiri en þrjú tjöld er að ræða og í þriðja lagi ef tjaldað er til fleiri en einnar nætur.
  • Við alfaraleið í óbyggðum, hvort heldur er á eignarlandi eða þjóðlendu, er heimilt að setja niður hefðbundin viðlegutjöld. Eins og áður segir er með óbyggðum einkum átt við hálendi eða öræfi þar sem fólk býr ekki að jafn- aði og ekki er að finna bústaði eða bæi manna.
  • Utan alfaraleiðar, hvort heldur er á eignarlandi eða þjóðlendu, er heimilt að setja niður göngutjöld nema annað sé tekið fram í sérreglum sem kunna að gilda um viðkomandi landsvæði. Með ferðum utan alfaraleiðar er átt við ferðir sem ekki þurfa að tengjast vegum eða stígum og leiðin getur legið um holt og móa. Göngutjald er létt tjald sem menn bera, draga eða reiða, t.d. í gönguferðum eða öðrum ferðum, og með sérreglum er átt við þær reglur sem kunna að gilda fyrir svæðið, t.d. um umgengni á því, og settar eru af bæru stjórnvaldi.451
  • Á ræktuðu landi má aðeins tjalda með leyfi eiganda lands eða rétthafa.Í 21. gr. er kveðið á um tvær undantekningar frá heimild manna til að slá upp tjaldi á óræktuðu landi. Annars vegar getur eigandi lands eða eftir atvikum rétt- hafi þegar sérstaklega stendur á takmarkað eða bannað að tjöld séu reist þar sem veruleg hætta er á að náttúra landsins geti beðið tjón af. Í athugasemdum við greinina í frumvarpi því sem varð að náttúruverndarlögum nr. 44/1999 segir að þessi undantekning taki jafnt til eignarlands, afréttar og þjóðlendu.452 Ekki er hins vegar nánar skýrt við hvaða aðstæður heimildin getur orðið virk, þ.e. hvað felst í orðunum „þegar sérstaklega stendur á“. Hin undantekningin lýtur að þeim til- vikum þegar eigandi lands eða rétthafi hefur útbúið sérstakt tjaldstæði á landi sínu. Getur hann þá beint fólki þangað og er honum jafnframt heimilt að taka gjald fyrir veitta þjónustu þar.

Skipulagðar hópferðir í atvinnuskyni

Í III. kafla náttúruverndarlaga er að finna sérreglur um hópferðir í atvinnuskyni þar sem mælt er fyrir um að haft verði samráð við eiganda lands eða rétthafa um umferð og dvöl á landi hans og boðið að tjaldað skuli á skipulögðum tjaldsvæðum eftir því sem við verður komið.

Girðingar

Samkvæmt 23. gr. er óheimilt að setja niður girðingar á vatns-, ár- eða sjávar- bakka þannig að hindri umferð gangandi manna. Hér verður að hafa í huga að um landnotkun og staðsetningu mannvirkja á vatns-, ár- og sjávarbakka fer eftir skipulagslögum og skipulagsreglugerð. Í 2. mgr. greinar 4.15.2

í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 segir að í deiliskipulagi svæða sem liggja að ám, vötnum og sjó utan þéttbýlis skuli þess gætt að ekki sé byggt nær vötnum, ám eða sjó en 50 m og að ekki verði hindruð leið fótgangandi manna meðfram þeim.

Í 23. gr. er einnig fjallað um það þegar girða á yfir forna þjóðleið eða skipulagðan göngu-, hjólreiða- eða reiðstíg. Gildir þá að sá sem girðir skal hafa þar hlið á girðingu eða göngustiga. Í greininni er einnig almennt ákvæði um viðhald girðinga en að öðru leyti gilda um þær ákvæði girðingarlaga og eftir atvikum annarra laga.

Tínsla berja, sveppa, fjallagrasa, fjörugróðurs og fleira

Samkvæmt 24. gr. er öllum heimil tínsla berja, sveppa, fjallagrasa og jurta í þjóðlendum og afréttum. Tínsla í eignarlöndum er hins vegar háð leyfi eiganda lands eða rétthafa en mönnum er þó heimil tínsla til neyslu á vettvangi. Heimild 24. gr. nær ekki til tínslu jurta sem friðlýstar hafa verið, sbr. auglýsingu nr. 184/1978. Einnig takmarkast heimildin af ákvæðum skógræktarlaga nr. 3/1955 en í 7. gr. þeirra segir m.a. að viðarrætur megi ekki rífa upp eða skerða á neinn hátt. Ekki má heldur rífa lyng, fjalldrapa, víði, mel eða annan hlífðargróður, heldur klippa eða skera, og bannað er að stinga upp og flytja á brott tré og hvers konar ungviði án leyfis skógræktarstjóra eða skógarvarða.

Hliðstæðar reglur gilda um tínslu fjörugróðurs og annars gróðurs, sbr. 25. gr. Í fjörum þjóðlendna er öllum heimil tínsla sölva, þangs, þara og annars fjörugróðurs. Tínsla í fjörum eignarlanda er háð leyfi eiganda eða rétthafa lands en mönnum er þó heimil tínsla til neyslu á vettvangi.

Í náttúruverndarlög nr. 44/1999 var í fyrsta sinn sett ákvæði um tínslu berja, sveppa, fjallagrasa, jurta og fjörugróðurs í atvinnuskyni. Samkvæmt því sem segir í frumvarpi því er varð að lögunum hafði ásókn í villtar jurtir þá þegar aukist veru- lega en þær eru m.a. nýttar til lækninga, lyfja- og matargerðar, í snyrtivörur og til skreytinga. Ekki þótti þó ástæða til að óttast ofnýtingu af þessum sökum en rétt þótti að veita umhverfisráðherra heimild til að setja í reglugerð ákvæði um þessa nýtingu. Segir að í reglugerð geti ráðherra m.a. kveðið á um skyldu til að tilkynna Náttúrufræðistofnun Íslands um magn og tegund þess sem tínt er og tínslustað og þegar sérstaklega standi á að leyfi Umhverfisstofnunar þurfi til tínslu einstakra tegunda eða á einstökum svæðum. Heimildin hefur ekki verið nýtt á þeim rúma áratug sem lögin hafa verið í gildi.

Umhverfisráðherra er jafnframt heimilt að setja í reglugerð ákvæði um notkun tækja og verkfæra til tínslu berja, sveppa, fjallagrasa, jurta og fjörugróðurs, sbr. 27. gr. Honum er einnig heimilt að leggja bann við notkun þeirra ef hætta er á að hún valdi spjöllum á náttúru landsins.

Meðferð elds

Í náttúruverndarlögum eru engin ákvæði um meðferð elds á víðavangi. Um þetta gilda sérstök lög, lög um sinubruna og meðferð elds á víðavangi nr. 61/1992. Sam- kvæmt 5. gr. laganna er óheimilt að kveikja eld á víðavangi þar sem almannahætta getur stafað af eða hætt er gróðri, dýralífi eða mannvirkjum. Hverjum þeim sem ferðast um er skylt að gæta ýtrustu varkárni í meðferð elds og sá sem verður þess var að eldur er laus á víðavangi skal svo fljótt sem auðið er gera aðvart umráða- manni lands eða hlutaðeigandi yfirvaldi. Brot gegn ákvæðum laganna varðar sekt- um og sá sem veldur tjóni með saknæmum hætti við meðferð elds á víðavangi ber á því skaðabótaábyrgð. Ákvæði 5. gr. eru útfærð nánar í reglugerð nr. 157/1993 og segir þar m.a. um eld sem gerður er á víðavangi til annars en að brenna sinu að hann skuli kveiktur í sérstöku eldstæði eða á þess konar undirlagi að tryggt sé að hann breiðist ekki út eða svíði gróður eða jarðveg. Eld skuli slökkva tryggilega eða gæta þess að hann sé að fullu kulnaður áður en eldstæðið er yfirgefið.

Heimildir:

Aagot V. Óskarsdóttir (ritstj.) (2011). Náttúruvernd. Hvítbók um löggjöf til verndar náttúru Íslands. Reykjavík: Umhverfisráðuneytið.

Bragi Björnsson (1994). Almannaréttur. Kandídatsritgerð við lagadeild Háskóla íslands